Frístundaskólinn – Frístundó

Swing in the playground
Beautiful playground for children
Í frístundarskólanum leggjum við fyrst og fremst áherslu á jákvæð samskipti og virðingu í leik.

Hver einstaklingur á að fá að njóta sín í frjálsum leik og þroskast í umhverfi sem einkennist af hlýju og öryggi. Börnin leika sér í frjálsum leik undir eftirliti, þeim er ekki kennt að leika sér en starfsmenn frístundarskólans leiðbeina þeim með jákvæð samskipti og að bera virðingu fyrir hvort öðru, starfsmönnum og umhverfinu. Ef upp koma vandamál ræðum við þau, finnum lausn og vinnum saman í að leysa vandamálið.

Einu sinni í viku setjumst við öll niður og höldum frístundafund. Þar er öllum frjálst að koma með hugmyndir, segja hvernig þeim líður – ræða hvað þeim finnst gott og hvað mætti fara betur. Með þessu fá krakkarnir tækifæri til að hafa áhrif á skipulag starfsins og gera góða frístund enn betri.

Ef veður er gott hvetjum við börnin til að vera úti í leik en almennt stendur til boða að vera annaðhvort úti eða inni, það er alltaf starfsmaður á báðum svæðum og vanti starfsmann eru kennarar kallaðir til og vakta þeir þá útisvæðið. Úti geta krakkarnir spilað körfubolta, fótbolta og GAGA, krítað, hjóla, rólað, sippað, farið í snúsnú og frispí, leikið sér í sandkassanum og gert flest allt sem þeim dettur í hug svo lengi sem starfsmaður getur fylgst með og gefur leyfi. Svæðið sem þau hafa úti er nær umhverfi skólans. Við eigum það líka til að bregða okkur af bæ og leika okkur í nær umhverfinu.

Boðið er uppá hressingu daglega um kl. 14:00 þar sem þau geta fengið sér ávexti, grænmeti, brauð, hrökkkex, kjötvörur og mjólkurvörur. Við reynum að hafa það fjölbreytt í hvert sinn svo allir geti fundið sér eitthvað. Við hvetjum þau öll til að fá sér næringu þar sem þau eru á mikilli hreyfingu allan daginn og einnig eftir skóla.

Við leggjum öll af stað á sama tíma í íþróttir en þau börn sem eru gangandi fá oftast að fara á undan þeim sem eru á hjólum, þá eru þau flest komin á sama tíma í íþróttahúsið og sá starfsmaður sem fylgir þeim á betra með að fylgjast með öllum á leiðinni og þegar komið er í íþróttahúsið. Starfsmaðurinn bíður með þeim í íþróttahúsinu þar til þjálfari tekur við.

Starfsmenn frístundó eru Ragnheiður Hilmarsdóttir og Kristín Guðmundsdóttir. Þær leggja mikla áherslu á að samskipti milli þeirra, nemenda og foreldra séu góð og virk. Frístundó er með facebook síðu (Frístundaskólinn – Frístundó) og hvetjum við alla foreldra með börn í frístundó ,sem eru með aðgang að facebook, að vera í þeim hóp. Þar setjum við reglulega inn fréttir og tilkynningar og tökum við skilaboðum frá foreldrum (t.d. ef barnið á að fara heim en ekki í íþróttir, heim með vini en ekki heim til sín, verður sótt fyrr eða hvað sem er sem ekki er vanalegt hjá viðkomandi) en einnig má senda póst á ragnheidur@blaskogaskoli.is

Kid playing with christmas crafts on white background.
top view of kids hands playing with puzzles