Febrúarstarf leikskóladeildar,
dagur leikskólans, kubbastarf og íþróttir.
Monthly Archives: February 2014
Stóra upplestrarkeppnin
Upplestrarkeppni Bláskógaskóla var haldin á Laugarvatni í dag. Þar voru valdir þeir nemendur sem taka þátt í lokakeppninni sem verður í Árnesi að viku liðinni. Keppnin í dag var spennandi, lesarar lögðu sig fram og höfðu æft sig vel. Dómarar voru þær Valgerður Sævarsdóttir, Freyja Rós Haraldsdóttir og Ingibjörg Bjarney Baldursdóttir. Fulltrúar skólans í lokakeppninni verða þau Rósa Kristín Jóhannesdóttir og Sverrir Örn Gunnarsson. Varamaður er Soffía Margrét Sigurbjörnsdóttir.
Sjálfsmarkmiðatré
Þemadagar voru haldnir í skólanum á haustönn. Þemað þetta árið var sjálfsmyndin og á einni stöðinni unnu nemendur að sjálfsmarkmiðatré. Nemendur voru beðnir um að skoða sjálfsmynd sína og setja sér markmið. Nemendur voru beðnir um að skoða t.d. hvort þeir ættu einhverja drauma, um hvað þeir vildu verða, læknir, bóndi og svo framvegis . Einnig hvort nemendur vildu læra eitthvað nýtt eða verða betri í einhverju. Markmiðin gátu tengst sköpun, hamingju, heilbrigði, vináttu, menntun, tjáningu, tilfinningu, innsæi, fjárhag eða hverju því sem hver og einn vildi stefna að. Þetta gátu verið langtíma eða skammtíma markmið. Hver nemandi valdi sér svo trjágrein sem táknaði hann sjálfan og útfærði á persónulegan hátt. Á greinina var markmiðunum komið fyrir á þann hátt sem nemandinn valdi sjálfur, skrifuð, máluð, útsaumuð eða hvað sem viðkomandi datt í hug. Eitt af markmiðum þessa verkefnis var að kynna fyrir nemendum skúlptúr og samvinnu, allar greinarnar voru svo skrúfaðar saman og mynda nú sjálfsmarkmiðatré sem má sjá á gangi skólans. Allir nemendur í Reykholti eiga sína grein í trénu.
Sigurlína og Signý
Hugarflugsfundur
Markmið sett á hugarflugsfundi
Ný skólaþjónusta í Árnesþingi sem tók til starfa um áramót er samvinnuverkefni sveitarfélaga í Árnesþingi en sveitarfélögin Ölfus, Hveragerði, Grímsnes- og Grafningshreppur, Bláskógabyggð, Hrunamannahreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Flóahreppur standa að þjónustunni.
Skólaþjónustan er samtvinnuð velferðarþjónustunni sem samvinna var þegar orðin um milli þessara sömu sveitarfélaga. Forstöðumaður Skóla- og velferðarþjónustunnar er María Kristjánsdóttir, félagsráðgjafi.
Þegar hafa verið ráðnir þrír starfsmenn til Skólaþjónustunnar, Hugrún Vignisdóttir, sálfræðingur, Ólína Þorleifsdóttir, kennsluráðgjafi og Hrafnhildur Karlsdóttir, kennsluráðgjafi sem jafnframt er teymisstjóri hópsins. Hafa þær allar hafið störf.
Hugarflugsfundur nýrrar skólaþjónustu í Árnesþingi var haldinn miðvikudaginn 12. febrúar á Þingborg í Flóahreppi. Til fundarins voru boðaðir skólastjórar leik- og grunnskóla, sveitarstjórnarmenn og starfsmenn skólaþjónustunnar. Fundinum stýrði Gerður G. Óskarsdóttir, fyrrv. fræðslustjóri Reykjavíkur, en hún hefur unnið að undirbúningi stofnunar þjónustunnar í samvinnu við sveitarfélögin á svæðinu. Tilgangur fundarins var að sveitarfélögin í samvinnu við skólana myndu móta skýr sameiginleg markmið sem unnið verður að í skólunum og hjá starfsmönnum skólaþjónustunnar. Hugarflugsfundurinn tókst afar vel, voru umræður líflegar en hnitmiðaðar. Mótuðust á fundinum nokkuð skýrir áherslupunktar sem vinnuhópur sem skipaður var á fundinum mun vinna nánar og kynna síðan sem endanlegar niðurstöður fundarins og sem markmið skólaþjónustunnar næstu misserin.
Á döfinni er umfangsmikið námskeið fyrir skólastjórnendur á svæðinu þar sem áhersla verður á skólann sem lærdómssamfélag, forystu og leiðtogahlutverk skólastjórnenda. Er gert ráð fyrir að námskeiðið standi í nokkra daga sem dreifist yfir árið. Fyrsti námskeiðsdagurinn verður föstudaginn 28. febrúar 2014.
Vetrarfrí
Mánudaginn 17. febrúar er starfsdagur kennara í skólanum og nemendur því heima þann dag. Fimmtudaginn 20. febrúar eru foreldraviðtöl, nemendur fá miða með sér heim í vikunni með tímasetningu á viðtalinu hjá hverjum og einum. Mánudaginn 24. febrúar og þriðjudaginn 25. febrúar er vetrarfrí í skólanum.