Miðvikudaginn 26. mars fór fram keppni í suðurlandsriðli í skólahreysti. Farið var með rútu til höfuðborgarinnar með öflugt stuðningsmannalið. Byrjað var á því að koma við í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Þar fengu nemendur góða leiðsögn og fræðslu um safnið. Keppnin fór fram í Smáranum í Kópavogi en 10 skólar mættu til leiks. Bjarki Bragason tók þátt í upphífingum og dýfum. Hann tók 36 upphífingar þar sem hann lenti í 1.-2. sæti og svo tók hann 24 dýfur þar sem hann lenti í 5. sæti. Ragnheiður Olga Jónsdóttir tók þátt í armbeygjum og hreystigreip. Hún tók 22 armbeygjur þar sem hún lenti í 7. sæti og í hreystigreipinni lenti hún í 8. sæti á tímanum 1.44 mín. Í hraðaþrautinni tóku þátt Rannveig Góa Helgadóttir og Valgeir Snær Backman þau lentu í 3-4. sæti á tímanum 2.38. Lokaúrslit keppninnar urðu þau að Hvolsskóli fór með sigur af hólmi en við í Bláskógaskóla lentum í 4. sæti sem er mjög góður árangur. Hægt er að sjá heildarúrslit á heimasíðu keppninnar, www.skolahreysti.is .
Það var glæsilegur stuðningsmannahópur sem fór með í ferðina til að styðja sem best við bakið á keppendum en það voru allir nemendur skólans í 8.-10. bekk. Eftir keppnina var farið í Smáralind þar sem allir fengu sér að borða áður en farið var í bíó. Það voru þreyttir en ánægðir nemendur sem komu seint heim eftir góðan og skemmtilegan dag.
Monthly Archives: March 2014
Starfsdagur
Þriðjudaginn 1. apríl verður starfsdagur í grunnskóladeild Bláskógaskóla. Nemendur verða í fríi og starfsmenn fara í skólaheimsóknir.
Menntalestin á Suðurlandi
Verkefnið er hluti af Sóknaráætlun á Suðurlandi og er ætlað að stuðla að skólaþróun á öllum skólastigum. Hugmyndin með menntalestinni er að sjá til þess að áhugaverð verkefni og fræðsla verði í boði í skólunum á svæðinu og þannig verði stuðlað að betri aðgangi að fræðslu, aukinni sköpun og skólaþróun í takt við þarfir og áherslur í nýrri aðalnámskrá.
Á vorönn er boðið upp á leiklistarsmiðju. Hugmyndin að henni er þríþætt:
Leiksmiðja fyrir starfsfólk, hún var í boði síðastliðinn fimmtudag
Leikritið Unglingurinn sem sýnt var í Aratungu á laugardag
Leiksmiðja fyrir nemendur. Nemendur í 5. – 10. bekk tóku í dag þátt í leikslistarsmiðju. Leiðbeinandi var Björk Jakobsdóttir. Ekki var annað að sjá en nemendur tækju þessari nýbreytni fagnandi, a.m.k. voru tóku allir virkan þátt með bros á vör.
Leikskólabörn í tónlistartíma
Unglingurinn
Við komum með Unglinginn til ykkar!
Unglingurinn er frábært nýtt leikverk sem er samið og leikið af unglingum. Sýningin hefur slegið í gegn.
UNGLINGURINN er drepfyndið leikrit en á sama tíma mjög einlægt og tekur á öllum helstu málum sem brenna á unglingum í dag. Þó að verkið sé um unglinga er það ekki síður skemmtilegt fyrir foreldra og systkini.
Þetta er tilvalin samverustund fyrir alla fjölskylduna þar sem hláturtaugarnar eru kitlaðar og foreldrar fá smá fræðslu í unglingamálum!
Leiksýningin Unglingurinn í Aratungu 22. mars
Síðasta sýning á Suðurlandi!
Miðar fást á midi.is og á staðnum eða í síma 565-5900
Miðaverð 2.500 kr., afsláttur veittur þegar pantað er fyrir 16.mars (símleiðis)
Laugardagur 22. mars kl. 17.00 Aratunga