Monthly Archives: December 2016
Jólaball og jólafrí
Mikið hefur verið um að vera hjá okkur í desember og má þar nefna helgileikinn hjá 1. – 4. bekk þar sem nemendur í Bláskógaskóla á Laugarvatni og í Reykholti komu saman í Skálh0ltskirkju og léku og sungu fyrir gesti, Emmsjé Gauti hélt uppi fjörinu fyrir 7. – 10. bekk á jólaballi á Flúðum og svo er mikið búið að föndra, skrifa jólakort og margt fleira jóló. Árlega luktargangan gekk glimrandi vel þar sem allir nemendur skólans gengu saman um þorpið með kertaljós og sungu saman jólalög í blíðskaparveðri með smá golu og hagléli inn á milli.
Skólaárinu hjá grunnskólanum lauk svo með skemmtilegum degi þar sem nemendur grunnskóladeildarinnar gáfu hvort öðru gjafir og enduðu daginn með jólaballi í skólanum fyrir alla í Bláskógaskóla á Laugarvatni (leik- og grunnskóla) en þangað mættu bræðurnir Skyrgámur og Kertasníkir og dönsuðu með krökkunum í kringum jólatréð. Gestur tónlistakennari ásamt stelpunum í elstu deildinni sá um tónlist og söng.
Leikskólinn verður opinn milli jóla og nýárs en lokaður 2. janúar líkt og grunnskólinn.
Við hlökkum til að hitta nemendur okkar aftur eftir gott jólafrí þriðjudaginn 3. janúar kl. 8:15 samkvæmt stundatöflu.